Hönnunarhugsun

Hönnunarhugsun er aðferðafræði sem má nýta til að takast við fjölbreyttar áskoranir, kryfja vandamál og leita fjölbreyttra lausna (Penaluna, 2010). Hönnunarhugsun byggir í grunninn á rannsóknaraðferðum sem hönnuðir og arkitektar hafa þróað í starfi sínu. Árið 1969 setti nóbelsverðlaunahafinn, Herbert A. Simon fram hugmyndir sínar um hvaða aðferðir og skref gætu gagnast við úrlausn flókinna kerfisbundinna áskoranna og með beitingu kerfishugsunar (e. Systems Thinking). Kenningar sínar grundvallaði Herbert á þverfaglegum grunni, þ.e. hagfræði, sálfræði (e. psychology of cognition) og skipulags- og verkfræðihönnun (e. planning and engineering design) (Herbert Simon, 1969). Í bókinni setti hann fram hugmyndir að sjö þrepum sem greinast hvert og eitt í ákveðna þætti og aðgerðir.Því hefur verið haldið fram að kenningar Herberts hafi sterklega mótað aðferðirnar að baki hönnunarhugsunar eins og hún er skilgreind í dag (Huppatz, 2015). Talið er að fyrstu tilvísanir til „hönnunarhugsunar“ (e. Design Thinking) sem slíkrar hafi komið fram árið 1987 í bók Peter Rowe, Design Thinking, prófessors við Hönnunarskóla Harvard (Harvard School of Design) (Rieple, 2016). Þessar hugmyndir Rowe voru þó nokkuð umdeildar meðal hönnuða og voru taldar ganga gegn skapandi ferli þeirra og innsæi (Cross, 2011). Tom Brown (2009), stjórnarformaður bandaríska hönnunarfyrirtækisins IDEO kemur fram með kenningar hönnunarhugsunar og lagði seinna áherslu á að öll verkefni hjá fyrirtækinu færu í gegnum skref hönnunarhugsunar. Í kjölfarið jókst áhugi á aðferðum hönnunarhugsunar og stórfyrirtæki á borð við Apple, Google og Samsung fóru í auknu mæli að nýta aðferðina.

Sem svar við gagnrýni á hversu lítið vægi sköpun fær í ferlinu þróuðust kenningar um hönnunarhugsun og aukin áhersla varð á nýsköpun. Roberto Verganti skrifar í bók sinni Design Driven Innovation (2009) um hönnunarhugsun og hönnunardrifna nýsköpun. Þá er ekki einungis verið að finna lausn á núverandi vanda heldur að ganga enn lengra og móta nýjar langanir og merkingar, hanna eitthvað sem notandinn vissi ekki að hann þyrfti eða vantaði (Verganti, 2009). Seinna komu fram hugmyndir um beitingu aðferða hönnunar til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir á borð við aukna sjálfbærni, takmörkun á sóun og umhverfissjónarmið.

Scroll to Top